Nýborg
Nýborg er byggð árið 1890 af Sigurði Jóhannessyni, síðar bónda á Gljúfri í Ölfusi.
Móakot höfum vér fyrst séð nefnt í Bréfab. Ám. 1789, og bjó þar þá Brandur Magnússon, áður bóndi í Eystri-Rauðarhól.
Merkigarður er byggður árið 1902 af Einari Sveinbjörnssyni, fyrr bónda á Leiðólfsstöðum. Þar bjó Einar til dauðadags 1937 og nú Guðmundur, sonur hans.
Læknishús var byggt af Eiríki Jónssyni trésmið frá Ási í Holtum, líklega 1898, og seldi hann það Guðmundi lækni Guðmundssyni, síðar í Stykkishólmi. Guðmundur læknir sat 3 ár á Stokkseyri (1898-1901) og bjó í þessu húsi, og var það þá við hann kennt. Það var seinna verzlunar- og íbúðarhús Jóns kaupmanns Jónassonar og brann 2.5.
Lyngholt er sumarbústaður fyrir austan Bræðratungu, byggður 1950-51 af Guðbjörgu Árnadóttur forstöðukonu barnaheimilisins að Kumbaravogi.
Lokabær var einsetumannskot eða þurrabúð í túninu í Hólum. og eru örnefnið og rústin til vitnis um það. Vera má, að þetta sé kot það, er Guðmundur gamli Ormsson bjó í á elliárum sínum og kallað er Hólahjáleiga í manntali 1703, en er hvergi getið annars staðar.
Litla-Ranakot var folald eða kuðungur frá Ranakoti efra og var í byggð á árunum 1851-73. Þar bjó fyrr Jón Jónsson, áður bóndi í Ranakoti efra, og byggði hann kotið, en síðar (frá 1869) Sveinn Jónsson blindi, áður bóndi í Kakkarhjáleigu.