Hóll
Hóll í sveitarbók Stokkseyrar 1875-76 er stytting úr Ölhóll, sjá þar.
Hólahjáleiga var þurrabúð hjá Hólum, sem er aðeins nefnd í manntali 1703 og hefir verið í byggð fáein ár. Þar bjó Guðmundur Ormsson á elliárum sínum í skjóli sonar síns, Jóns bónda og smiðs í Hólum. Vera má, að býli þetta sé hið sama sem enn sér merki til í túninu í Hólum og kallað
Hof var byggt árið 1908 af Gísla Sigmundssyni frá Gerðum í Flóa, er kallaður var Harmoniku-Gísli. Á Hofi bjó síðast Bjarni Nikulásson og dó þar 1933, og fór það þá í eyði.
Helluhóll er aðeins nefndur í manntalsbók Árnessýslu 1802. Þar bjó þá Erlendur Bjarnason, áður bóndi í Hellukoti. Kot þetta hefir verið kuðungur frá Hellukoti og ekki verið í byggð lengur en í 1-2 ár.
Helgahús var kennt við Helga Jónsson verzlunarstjóra Kaupfélagsins Ingólfs, sem bjó þar frá 1907-26, er hann fluttist til Reykjavíkur. Það var áður kallað Ólafshús, sjá það.
Heiði var þurrabúð hjá Brattsholti, kölluð öðru nafni Trýni manna á milli. Þar byggðu árið 1879 Jón Jónsson og Hildur Jónsdóttir og bjuggu þar fyrst. Kot þetta fór í eyði 1896, og bjó Tómas Ögmundsson, áður bóndi í Vestra-Stokkseyrarseli, þar síðast.
Heiðarhvammur hét fyrst Bugakot og svo Bjarnastaðir, sjá þar. Árið 1910 fluttist þangað Ólafur Guðmundsson ferjumaður frá Sandhólaferju, faðir Kjartans, fyrrum bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, og skírði hann bæinn Heiðarhvamm. Síðast bjó þar Júlíus Gíslason frá Ásgautsstöðum. Hann fluttist að Syðsta-Kekki 1914, og fór Heiðarhvammur þá í eyði.
Hafsteinn er byggður árið 1910 af Hreini Kristjánssyni, síðar bónda í Símonarhúsum. Hafsteinn er fyrsta steinhúsið á Stokkseyri og Eyrarbakka, sem fullgert var.
Götuhús eru byggð árið 1897 af Sæmundi steinsmið Steindórssyni frá Stóru-Sandvík, og bjó hann þar fyrstur.