Brynkahús
Brynkahús var kennt við Brynjólf Gunnarsson, sjá Traðarhús.
Brekkuholt er byggt árið 1907 af Ingimundi Eiríkssyni frá Haugakoti í Flóa. Brún var byggð árið 1896 af Magnúsi Teitssyni. Þá er lokið var bæjargerðinni, kvað hann: Þessi heitir bær á Brún, byggður rétt hjá flóði, fylgir hvorki tröð né tún, telst þar lítill gróði. Brún er nú í eyði, en húsið notað sem sumarbústaður.
Brekka er byggð 1896 af Ólafi Jónssyni, fyrr bónda í Gerðum í Flóa. Hann fluttist síðar til Reykjavíkur.
Brávellir eru byggðir 1908 af þeim Jóni Þorsteinssyni járnsmið frá Kolsholtshelli og Theódór Jónssyni frá Álfsstöðum. Theódór fluttist síðar til Reykjavíkur og dó þar.
Brautarholt var sama býli sem áður hét Árnatóft, sjá þar, og breytti Kristján Hreinsson um nafn á því 1903. Síðasti búandi þar var Helgi Halldórsson. Hann fluttist að Grjótlæk 1911, og fór Brautarholt þá í eyði.
Blómsturvellir voru byggðir árið 1910 af Brynjólfi Gíslasyni frá Þverspyrnu í Ytrihrepp. Hann fluttist síðan til Reykjavíkur.
Bjarnastaðir voru kenndir við Bjarna formann Nikulásson, er þar bjó, og var nafn þetta notað á árunum 1903-10. Býli þetta hét fyrst Bugakot, en síðast Heiðarhvammur, sjá þau.
Bjarnahús er kennt við Bjarna Grímsson bónda á Stokkseyri, er bjó þar allan sinn búskap og stækkaði það nokkuð. Húsið byggði Eiríkur Jónsson trésmiður frá Ási í Holtum árið 1901 og seldi Bjarna Grímssyni sama ár. Eftir að Bjarni fluttist til Reykjavíkur 1926, bjó Sigurður Sigurðsson bóndi á Stokkseyri í Bjarnahúsi og nú Katrín, ekkja
Bjarnaborg er kennd við Bjarna formann Jónasson frá Magnúsfjósum, er bjó þar lengi. Húsið var byggt árið 1900 af Jóni bónda Grímssyni á Stokkseyri. Nafnið kemur fyrst fyrir í manntali 1940.
Bjarmaland er byggt árið 1895 af Jóni Vigfússyni verzlunarmanni hjá Ólafi Árnasyni. Jón fór til Ameríku 1899 og seldi húsið þá Guðmundi kennara Vernharðssyni, sem bjó í því til dauðadags 1901. Eftir það var hús þetta lengi vörugeymsluhús Jóns kaupmanns Jónassonar, en síðan var það tekið til íbúðar aftur. Nafnið Bjarmaland kemur fyrst fyrir árið